Annan daginn í röð hækkaði ríflega helmingur skráðra félaga á aðalmarkaði en þrátt fyrir það lækkaði OMXI10 vísitalan. Lækkun Marels hélt áfram en Origo var á móti hástökkvari dagsins.

Velta á aðalmarkaði nam fimm milljörðum króna en fimmtungur þess var vegna Marels. Næst í kjölfarið fylgdu Arion með 859 milljónir og Icelandair með 809 milljónir. Fjöldi viðskipta var 539 en ríflega fjórðungur var með bréf í Icelandair og fimmtungur með Marel.

Sem fyrr segir mátti finna mestu hækkunina hjá Origo eða 3,15% en þar á eftir fylgdi Icelandair með 2,55%. Þá hækkaði VÍS um tæp tvö prósent, Eik um 1,64% og hækkun Sjóvá og Íslandsbanka var í kringum prósent. Hagar hækkuðu um 0,79%, Kvika um 0,74% og Brim um eilítið minna. Að endingu hækkaði Sýn um 0,43% og Arion um 0,26%.

Á hinum endanum lækkuðu Eimskip, Síldarvinnslan, Reginn og Iceland Seafood um í kringum hálft prósent hvert félag. Síminn lækkaði um 1,65% en velta með bréf félagsins nam 254 milljónum.

Annan daginn í röð lækkar Marel um tæp þrjú prósent, nánar til tekið um 2,87%, en dagslokagengi félagsins var 812 krónur á hlutinn. Allt þetta ár hefur félagið verið yfir 800 krónum á hlutinn en hæst fór það í 973 krónur í byrjun september.

Lítil velta var á First North markaðnum eða tæpar 20 milljónir. Play hækkaði um 2,53%, Kaldalón um 1,07% en á móti lækkaði Solid Clouds um 1,09%.