Í nýrri spá Goldman Sachs segir að meðalverð á WTI hráolíu verði um 50,4 dalir á fatið á þessu ári og að meðal verð á Brent norðursjávarolíu verði um 70 dalir á fatið. Fyrri spá bankans gerði ráð fyrir 83,75 dala meðalverði fyrir WTI og 90 dölum fyrir Brent.

Þegar nýja spá Goldman Sachs komst á stjá hafði hún þegar áhrif á markaði. Verð á Brent hráolíu lækkaði í 48,12 dali og WTI í 46,45. Í báðum tilvikum er um tæplega tveggja dala lækkun að ræða.

Hlutabréfavísitölur lækkuðu sömuleiðis, en Dow Jones vísitalan hefur lækkað um 0,86% það sem af er degi. Í frétt New York Times er haft eftir Craig Erlam, sem vinnur við greiningar hjá Alpari, að olíumarkaður verði sveiflukenndur næstu daga eftir því sem olíuframleiðendur munu finna fyrir meiri þrýstingi til að draga úr framleiðslu vegna verðlækkunarinnar.