Heimsmarkaðsverð á olíu hefur farið hríðlækkandi síðustu vikur og hefur engin breyting orðið á því það sem af er degi. Þannig hefur verð á Brent hráolíu lækkað um 4,1% í dag og kostar tunnan nú 43,6 dali. Hefur verðið ekki verið lægra í sex og hálft ár.

Olíuverð hefur lækkað nær stöðugt síðustu tvo mánuði og hefur ekki fallið í jafnlangan tíma í næstum þrjátíu ár. Verð á olíu vestanhafs er nú komið niður fyrir 40 dali á tunnu og stendur nú í 38,9 dölum. Hefur verðið lækkað um 3,6% það sem af er degi.

Í síðustu viku var greint frá því að olíubirgðir hefðu aukist í landinu mun meira en sérfræðingar bjuggust við. Fóru birgðirnar þá úr 453,6 milljónum tunna í 456,2 milljónir tunna milli vikna, sem var 2,6 milljóna tunna aukning.