*

sunnudagur, 25. október 2020
Innlent 24. september 2020 18:02

Enn lækkar vísitalan

Hlutabréf Icelandair lækkuðu mest og standa nú í 1,14 krónum hvert. Bein veðsetning á hlutabréfamörkuðum var 13% í sumar.

Ritstjórn

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi, OMXI10, lækkaði um ríflega prósentustig í viðskiptum dagsins og stendur í 2.064 stigum. Við lokun markaða hefur hún ekki verið jafn lág síðan 21. júlí. Það sem af er ári fór hún lægst í 1.583 stig á síðari hluta marsmánaðar.

Lækkun hlutabréfa Marel skýrir að miklu leiti þróun Úrvalsvísitölunnar en markaðsvirði félagsins er um 60% af markaðsvirði vísitölunnar. Hlutabréf Marel lækkuðu um rúmlega eitt prósent í dag og standa þau í 666 krónum. Þau hafa ekki verið jafn lág síðan um miðjan júní á þessu ári. 

Mest lækkun var á hlutabréfum Icelandair um 3,39% í þó ekki nema fjögurra milljóna króna viðskiptum. Bréf félagsins standa í 1,14 krónum hvert. Næst mest lækkun var á bréfum Regins um 2,22% í mestri veltu dagsins sem nam um 350 milljónum. Bréf félagsins standa í 15,45 krónum. Þriðja mest lækkun var á bréfum Arion banka um 1,85% sem standa í 74,1 krónu.

Einungis hlutabréf Brims, Sjóváar og Vís hækkuðu í virði. Heildarviðskipti dagsins námu 1,4 milljörðum króna í 127 viðskiptum.

Veðsetning á hlutabréfamarkaði um fimmtungur

Bein veðsetning á íslenskum hlutabréfamarkaði var um 13% í lok júlímánaðar. Lífeyrissjóðirnir eiga um 40% af markaðsvirði skráðra félaga á Íslandi en þær eignir eru allar óveðsettar. Ef einungis er horft er til veðsetningar hlutabréfa í eigu annarra en lífeyrissjóðanna er hún um 22%. Frá þessu er greint í riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleiki, sem birt var í gær.

Frá þessum tölum er einungis horft til beinnar veðsetningar. Ekki er tekið tillit til allsherjarveða í hlutabréfum eða óbeinnar veðtöku með gerð afleiðusamninga. Veðsetning á íslenskum hlutabréfamarkaði er því að öllum líkindum hærri.