Verðfall á hlutabréfum í Bandaríkjunum í gær og í Asíu í nótt smitaði út frá sér við opnun markaða í Evrópu nú í morgun. Helstu hlutabréfavísitölur hafa nú ekki verið lægri í fimm vikur, samkvæmt samantekt fréttastofu Reuters.

Ástæðan fyrir verðlækkuninni á mörkuðum í Evrópu er sem fyrr áhyggjur fjárfesta af því að álag á skuldir Spánverja séu að verða óviðráðanlegar og að ráðamenn evruríkjanna beiti sér ekki með nægum afli til að slá á skuldakreppuna.

Evrópski seðlabankinn hefur reynt að leggja lóð sitt á vogarskálarnar með kaupum á skuldabréfum evruríkja með það fyrir augum að koma lántökukostnaði ríkjanna niður. Ítalir munu sáttir eftir kaup seðlabankans á ítölskum ríkisskuldabréfum enda fór kostnaður þeirra niður úr 7% þakinu.

Fréttastofa Reuters hefur eftir fjármálasérfræðingum að ástandið sé orðið svo slæmt á evrusvæðinu meira þurfi að koma til en kaup á skuldabréfum.

Það sem af er dags hefur FTSE-vísitalan í Bretlandi lækkað um 0,72%, DAX-vísitalan í Þýskalandi lækkað um 0,25% og CAC 40-vísitalan í Frakklandi lækkað um 0,16%.