Gengi hlutabréfa hefur almennt lækkað í Kauphöllinni í dag. Gengi bréfa N1 hefur lækkað mest eða um 1,64%. Hlutabréf N1 voru skráð í Kauphöllina rétt fyrir síðustu jól. Í tvískiptu útboði í aðdraganda skráningar var gengi bréfa N1 15,3 og 18,01 krónur á hlut. Gengi bréfa N1 stendur nú í 18 krónum á hlut. Velta með hlutabréf N1 nema 57 milljónum króna.

Gengi bréfa Marel hefur jafnframt lækkað mikið eða um 1,1%. Gengi þeirra stendur nú í 112,75 krónum á hlut og er það í lægri kantinum. Það stóð síðast á þessum slóðum í síðustu viku. Þar áður hafði það ekki verið jafn lágt í rúm þrjú ár.

Þá hefur gengi bréfa Haga lækkað um 0,73%, Vodafone um 0,66%, Eimskips um 0,64%, TM um 0,33% og Regins um 0,3%. Á móti hefur gengi bréfa Icelandair Group hækkað um 1,08% og VÍS um 0,76%.

Úrvalsvísitalan hefur hins vegar ekki lækkað mikið eða um 0,09%. Hún stendur nú í 1.207 stigum. Í síðustu viku lækkaði vísitalan nokkuð eða um 2,66%.