Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), segir í samtali við Morgunblaðið að gagnlegir vinnufundir hafi átt sér stað undanfarna daga í yfirstandandi kjaraviðræðum. Ágætlega miði í þeirri vinnu en það sé mikið eftir. „Það er aftur á móti kominn aukinn kraftur í viðræðurnar sem er jákvætt,“ segir hann.

Samtökin eiga fund með VR og Flóabandalaginu hjá sáttasemjara í dag.  Kolbeinn Gunnarsson hjá Hlíf, sem er aðili að Flóabandalaginu, segir viðræðurnar ganga of hægt fyrir sinn smekk.  „Þetta mjakast og við verðum að sjá til hvernig þetta þróast næstu daga.“

Páll Halldórsson, formaður Bandalags háskólamanna sem á í viðræðum við íslenska ríkið, segir í samtali við Morgunblaðið  að viðræður hafi þokast í rétta átt þó að þokan sé ansi þykk. „Það er aðeins bjartara yfir manni. Þangað til í byrjun þessarar viku höfðum við ekki séð nokkurn skapaðan hlut frá ríkinu. Það þarf kannski ekki mikið til að gleðja mann.“