Hlutabréf lækkuðu í Bandaríkjunum í dag, annan daginn í röð. Nasdaq lækkaði um 0,98%, Dow Jones um 0,91% og Standard & Poor's lækkaði mest eða um 1,32%.

Það er helst neikvæðar fréttir af fjármálafyrirtækjum sem orsakar lækkanir dagsins. Fjármálafyrirtæki lækkuðu um 3,1% í dag. Barclays bankinn í London (sem töluverð umsvif hefur í Bandaríkjunum) tilkynnti snemma í morgun að til standi að afskrifa 2,7 milljarð bandaríkjadala sem tapast hefur undanfarið.  Barcleys er líkast til síðasti stóri bankinn sem tilkynnir afskriftir í bili vegna þess ástands sem ríkt hefur á bandaríska húsnæðismarkaðnum.

Forstjóri Wells Fargo bankans, John Stumpf, sagði einnig á ráðstefnu í morgun að bankinn hefði ekki ,,séð eins mikla lækkun á húsnæðismarkaði frá því í Kreppunni miklu." Hann sagði einnig að langt væri í að ró kæmist á markaðinn. Bloomberg.com hefur það eftir Stumpf að hann búist við sama ástandi út árið 2008.

Neytendavísitalan í Bandaríkjunum heldur þó jafnvægi miðað við það sem við var búist. Hækkun varð um 0,2% á neysluvísistölunni í október og þar með hefur hún hækkað fimm mánuði í röð. Neysluvísitalan hefur þá hækkað um 2,2% síðustu tólf mánuði. Það er í takt við væntingar.