Hlutabréf lækkuðu í Evrópu í dag þriðja daginn í röð og segir Reuters fréttastofan að helst megi rekja lækkunina til áhættufælni fjárfesta á fjármálamörkuðum.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði  í dag um 0,8% en vísitalan hefur lækkað um 24% það sem af er ári.

Eins og svo oft áður síðustu misseri voru það bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins að sögn Reuters. Þannig lækkaði Societe Generale um 3,1%, Fortis  um 2,1%, BNP Paribas um 1,5%, Credit Agricole um 3,9%, Barclays um 2,3% og Royal Bank of Scotland um 3,3% svo dæmi séu tekin.

Þá hækkuðu námu- og orkufyrirtæki þrátt fyrir lækkandi verðlags á hrávörum, þá sérstaklega málmi.

BHP Billiton, Anglo American, Xstrata og Rio Tinto hækkuðu öll á bilinu 0,5% - 5,2%.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,9%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 0,3% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 0,5%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 0,8% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 0,7%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 1,5%, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 1,5% sömuleiðis en í Osló hækkaði OBX vísitalan um 0,5% og er þetta annar dagurinn í röð sem OBX vísitalan hækkar ein vísitalna í Evrópu.