Miklar lækkanir hafa verið á hlutabréfamörkuðum í heiminum í dag, að sögn greiningardeildar Kaupþings banka.

?Lækkunarhrinan í þessari viku er annars vegar rakin til ótta um aukna verðbólgu og svo hins vegar lækkandi olíuverðs. Skýringarnar vinna reyndar á móti hvor annarri og er það til vitnis um að enginn veit með neinni vissu hvað veldur svo snöggum lækkunum á hlutabréfamörkuðum," segir greiningardeildin og bendir einnig á aðra skýringu:

?Önnur skýring sem ekki síður er líkleg er að lækkanirnar séu að vinda upp á sig meðal annars vegna mikillar skuldsetningar á bakvið hlutabréfakaup að undanförnu. Mest var lækkunin í dag í Rússlandi um 8%. Ótti ræður ferðinni á norrænum mörkuðum í dag og lækkuðu allir norrænu markaðirnir. KFX vísitalan féll mest eða um 3,7% en aðrir fylgdu þar fast á eftir og má nefna að norska OBX vísitalan lækkaði einnig um 3,7%, sænska OMX um 2,7% og íslenska ICEX um 2,5% og finnska HEX um 3%."

Greiningardeildin segir að ótti um að hægja muni á hagkerfum heimsins í kjölfar vaxtahækkana sem vænta er víða um heim hefur undanfarinn mánuð sett sterkan svip á markaði heimsins og þar eru norrænir markaðir engin undantekning. ?Menn virðast grípa fast í allar neikvæðar fregnir af efnahagsástandi bæði heima og úti í heimi en gefa fregnum af rekstri einstakra fyrirtækjum minni gaum."

Þróun norræna markaða

Eftir lækkanir dagsins eru vísitölur norrænu markaðanna, að norsku OBX undanskildri, komnar undir það gildi sem þær stóðu í við byrjun árs, að sögn greiningardeildar en í Svíþjóð hefur OMX vísitalan lækkað um 8,5% frá áramótum, í Danmörku hefur KFX lækkað um 11,1% á Íslandi nemur lækkun frá áramótum 1,5%.

?Eftir að árið hófst með töluverðum hækkunum á skandinavískum mörkuðum, að Danmörku undanskilinni, hafa lækkanir nú þurrkað þær út og meira til," segir greiningardeildin.

Frá byrjun maí fram að deginum í dag hefur OBX vísitalan lækkað um 15,9%, OMX um 15,3% og KFX um 12,4% og íslenska úrvalsvísitalan ICEX hefur lækkað um 2,2%. Segir greiningardeildin ástæðuna liggja í því að lækkanir á íslenskum markaði áttu sér stað nokkru áður en lækkanir hófust í hinum norðurlöndunum.

"Það er einnig forvitnilegt að sjá að ef skoðuð eru hæstu gildi vísitalnanna það sem af er árinu og þau borin saman við þau gildi sem þau standa í þá sést að íslenska ICEX hefur fallið mest eða um 21,3% á meðan OBX hefur fallið um 20,2%, OMX um 18,4% og KFX um 16%. Það ber þó að taka fram að lækkanir ICEX og OBX má að einhverju leyti rekja til þess að þar höfðu hækkanir verið meiri en á öðrum norrænum mörkuðum," segir greiningardeildin.