Englandsbanki lækkaði í morgun stýrivexti sína um 50 punkta, úr 1,5% í 1% en í rökstuðningi bankans kemur fram að með stýrivaxtalækkuninni sé reynt að blása lífi í breska hagkerfið sem nú er í samdrætti.

Þetta er nú fimmta stýrivaxtalækkun bankans frá því í október síðastliðnum þegar stýrivextir voru 5%.

Eins og fyrr segir er breska hagkerfið að fara í gegnum samdráttarskeið en samdráttur varð á síðustu tveimur ársfjórðungum og spá bankans gerir, að öllu óbreyttu, ráð fyrir 2,8% samdrætti á þessu ári.

Ekki eru þó allir sáttir við stýrivaxtalækkun bankans því samtök lítilla fyrirtækja (Federation of Small Businesses) hafa mótmælt henni og segja að bankinn ætti frekar að vinna í því að auka fjármagnsflæði í landinu til að auðvelda lántökur.

Í nýlegri könnun sem samtökin létu gera kom fram að 63% félagsmanna vildu óbreytta stýrivexti, þ.e. að þeir yrðu áfram 1,5%.

Flestir greiningaraðilar á Bretlandi er þó sáttir við stýrivaxtalækkunina og segja hana auðvelda fyrirtækjum og heimilum til að vinna sig út úr efnahagskrísunni.

Sem fyrr segir var samdráttur í bresku efnahagslífi síðustu tvo ársfjórðunga. Samdrátturinn nam 0,6% á þriðja ársfjórðungi þessa árs og 1,5% á fjórða ársfjórðungi.