Enn heldur heimsmarkaðsverð á olíu áfram að lækka og olíufélögin á Íslandi hafa brugðist við með lækkunum í dag. Lægst er bensínið á Íslandi nú hjá Orkunni á Reykjavíkurvegi og við Kænuna á 198,80 krónur. Á sömu stöðum er verðið á dísilolíunni einnig lægst, eða 195,80 krónur lítrinn.  Í London er hráolíuverðið komið niður í 68,99 dollara tunnan og í 68,34 dollara í New York. Hefur verðið ekki verið lægra síðan í september 2009.

Lægst hefur verðið innan dagsins á hrávörumarkaði í London farið í 68,15 dollara en opnunarverð í morgun var 70,92 dollarar.  Í New York hefur verðið á olíutunnunni í dag farið lægst í 67,15 dollara en þar var opnunarverðið 69,90 dollarar.