Íslensku bankarnir hafa róið að því öllum árum að viðhalda traustri lausafjárstöðu og eiga enn lausafé til um árs, þótt nú séu liðnir um níu mánuðir frá því að lánsfjárkreppan hófst og ekki sjái enn fyrir endann á henni.

Þetta hafa þeir gert með því að draga úr útlánum, minnka kostnað, losa um eignir og sækja sér fé eftir öðrum leiðum en með almennri útgáfu skuldabréfa. Trygg lausafjárstaða er gulls ígildi á tímum erfiðara aðgengis að lánsfé og hefur bæði áhrif á skuldatryggingaálag bankanna og á mögulegt aðgengi þeirra að lánsfé.

Þótt íslensku bankarnir hafi bætt upplýsingar um lausafjárstöðu sína og setji sér strangari reglur um hana til 1-3 mánaða heldur en reglur Seðlabankans kveða á um, er allur samanburður á milli þeirra nokkuð erfiður þar sem forsendur þeirra við útreikninga á lausafjárstöðu liggja yfirleitt ekki ljósar fyrir.

Þessar forsendur geta m.a. snúið að því hvað menn gefa sér um framtíðarhorfur þegar verið er að meta lausafjáreignir til næstu sex til tólf mánaða og hversu miklu frádragi ( e. haircut) menn reikna með, hversu föst menn telja innlán vera fyrir og eins flækir það málin að ekki er endilega hægt að færa fyrirvaralaust laust fé frá dótturbanka í einu landi til annars en lausafjárstaðan er alla jafna miðuð við samstæður bankanna.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .