Sérstakur saksóknari er enn með um 40 mál til rannsóknar sem tengjast hruninu. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, sagði í samtali við Morgunútvarp Rásar 2 að þau þau mál sem eru til rannsóknar í dag hafi borist á árunum 2011, 2012 og 2013. Tuttugu ákærur hafa verið gefnar út i tengslum við bankahrunið. Í sumum tilfellum hafa mál verið sameinuð í eina ákæru.

Ólafur sagði að hóflega hefði verið gengið fram þegar þvingunarúrræðum var beitt við rannsókn mála. Til dæmis þegar gæsluvarðhalds var krafist. Yfirleitt hafi menn setið inni í skemmri tíma en gæsluvarðhaldsúrskurður sagði til um. Aldrei hefði verið krafist framlengingar á gæsluvarðhald.

Ólafur sagði í viðtalinu að erfitt væri að meta hvenær siðasta málið tengt hruninu yrði klárað. „En það sem er sett sem markmið er að klára sem mest af þessum hrunmálum á árinu 2014,“ sagði Ólafur. En hann ítrekaði að töluvert mörg mál hefðu komið til meðferðar árið 2013.

Hann sagði að þau tvö mál sem væru til meðferðar fyrir héraðsdómi núna og varða markaðsmisnotkun væru sennilega ein stærstu mál embættisins, bæði af umfangi og efni. „Þau skýra það sem var að gerast á síðustu metrunum fyrir hrun,“ sagði Ólafur og ítrekaði að þetta væru veigamikil mál. Þarna vísar Ólafur vafalaust í mál gegn fyrrverandi starfsmönnum Landsbankans og fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings.

Þá sagði Ólafur að hann teldi ekki að dómstólar hefðu látið stjórnast af andrúmslofti í samfélaginu. Dómararnir hafi verið hlutlægir. „Mér finnst þessi gagnrýni allavega ekki réttmæt," sagði hann um skrif lögmanna á borð við Brynjar Níelsson, Sigurð G. Guðjónsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.