Seðlabanki Íslands spáir því að fasteignaverð muni lækka að raunvirði, þ.e. að teknu tilliti til verðbólgu, um 20 til 30 prósent fram til 2012. Þetta er meiri lækkun en seðlabankinn hafði áður spáð. Fasteignaverð hefur lækkað um þriðjung að raunvirði  frá því það var hæst, seinni part árs 2007.

Þetta gæti kallað á enn meiri afskriftir á fasteignalánum til heimila en almennt er gert ráð fyrir, að því er fram komi í máli Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur þingmanns Samfylkingarinnar í fréttum RÚV í dag.

Undanfarna mánuði hefur fasteignverð svo gott sem staðið í stað, skv. mælingum. Seðlabankinn gerir mælingarnar að umtalsefni í nýjustu útgáfu Peningamála. Þar segir að í ljósi þess hversu lítil viðskiptin á fasteignamarkaði eru um þessar mundir geti niðurstöður í mælingum sýnt ónákvæmar niðurstöður og jafnvel misvísandi.