Verðlag á evrusvæðinu í janúar var 0,6% lægra en það var á sama tíma í fyrra, að því er segir í frétt BBC. Í desember mældist 12 mánaða verðhjöðnun 0,2%. Lækkandi olíu- og orkuverð á stóran þátt í þróuninni, en eins og kunnugt er hefur heimsmarkaðsverð á olíu lækkað um ein 60% frá miðju síðasta ári. Í janúar lækkaði orkuverð almennt um 8,9% á evrusvæðinu.

Séu matur og orka tekin út fyrir sviga hækkaði verðlag um 0,5% á evrusvæðinu, en það hækkaði um 0,7% í desember miðað við sömu forsendur.

Evrusvæðið hefur aðeins einu sinni gengið í gegnum viðlíka verðhjöðnun, en það var í júlí 2009 þegar kreppa hófst á evrusvæðinu í kjölfar fjárkreppunnar. Í síðustu viku kynnti evrópski seðlabankinn aðgerðir sem eiga að auka verðbólgu og koma hjólum hagkerfisins af stað á ný, en það felst í stórfelldum skuldabréfakaupum bankans.