Enn er meirihluti fyrir úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu samkvæmt nýrri könnun YouGov en hún sýnir að þeir sem vilja yfirgefa sambandið eru með 44% stuðning en þeir sem enn vilja vera í sambandinu eru með 43% stuðning. Þetta kemur fram á síðunni order-order.com .

Skotar vilja enn sameinað Bretland þrátt fyrir úrsögn úr ESB

Jafnframt sýna kannanir í Skotlandi að enn er meirihluti Skota hlynntur áframhaldandi veru landshlutans í sameinaða breska konungsdæminu. Sýnir könnun YouGov að 53% Skota vilja áfram tilheyra Bretlandi en 47% myndu kjósa sjálfstæði Skotland ef kosið yrði nú.

Hefur hlutfall þeirra sem vilja sjálfstætt Skotland einungis aukist um 1 prósentustig síðan fyrirtækið gerði síðast könnun um efnið í byrjun maí, fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 23. júní um úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu.

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni kusu 62% Skota með áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu. Lýsti 1. ráðherra Skotlands og leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, Nicola Sturgeon, því yfir í kjölfarið að ný atkvæðagreiðsla um sjálfstæði Skotlands yrði þess vegna „mjög líkleg.“

Voru 1.006 fullorðnir Skotar spurðir út í afstöðu sína á dögunum 20-25 júlí.