Gengi hlutabréfa Össurar féll aftur um 2% í dag og endaði gengi bréfa félagsins í 190 krónum á hlut. Gengið hefur nú fallið um rétt rúm 4% síðan það birti uppgjör í gær. Jón Sigurðsson, forstjóri stoðtækjafyrirtækisins, sagði það undir væntingum. Fremur lítil velta er á bak við viðskiptin í dag eða tæpar 54 þúsund krónur.

Á sama tíma hækkaði gengi bréfa Icelandair Group um 1,36% í tæplega 270 milljóna króna veltu. Þá hækkaði gengi bréfa Marel um 0,37% og fasteignafélagsins Regins um 0,29%

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,15% og endaði vísitalan í 993,44 stigum. Heildarvelta í Kauphöllinni nam 342 milljónum króna og stóð velta með hlutabréf Icelandair Group undir rúmum 80% af heildarviðskiptum með hlutabréf á aðallista.