Fjárhættuspilarar eyddu 2,4 milljörðum Bandaríkjadala í kínversku spilaborginni Macau í síðasta mánuði, en það er næstum helmingi minni fjárhæð en þeir eyddu í sama mánuði á síðasta ári. Þetta kemur fram í frétt BBC News .

Macau er eina borgin í Kína þar sem spilavíti eru leyfð og reiðir hún sig nær eingöngu á tekjur vegna slíkrar starfsemi. Borgin er stærsta spilaborg í heimi og skýtur þar borginni Las Vegas í Bandaríkjunum ref fyrir rass.

Kínversk stjórnvöld hafa að undanförnu unnið að því að uppræta spillingu í landinu og hefur það gert það að verkum að margir af umfangsmestu fjárhættuspilurunum hafa haldið að sér höndum í spilavítunum.