Alþjóðlegar sölutölur hjá skyndibitarisanum McDonald's drógust saman um 2,2% í nóvember og er þetta sjötti mánuðurinn í röð þar sem um samdrátt í sölu er að ræða. BBC News greinir frá þessu.

Sala í Bandaríkjunum dróst saman um 4,6% í mánuðinum eða um tvöfalt meira en búist hafði verið við. Ástæðurnar eru taldar vera þær að neytendur séu farnir að horfa til heilbrigðari valkosta á skyndibita, svo sem Chipotle sem hefur verið að sækja í sig veðrið að undanförnu.

Don Thompson, framkvæmdastjóri McDonald's, segir að skyndibitakeðjan muni bregðast við breyttum aðstæðum með því að einfalda matseðilinn, bæta markaðssetningu og gefa einstökum stöðum frjálsari hendur í rekstrinum.