Steve Ballmer, framkvæmdastjóri Microsoft, segir að samstarfssamningur við Yahoo gæti enn verið mögulegur og myndi borga sig. Fyrirtækin eiga þó ekki í neinum viðræðum ennþá.

Gengi bréfa Yahoo hækkaði um 17% í gær eftir að Ballmer lét ummælin frá sér fara, en féllu svo niður aftur þegar Microsoft gaf frá sér yfirlýsingu um að Microsoft hafi ekki áhuga á að kaupa Yahoo.

Microsoft reyndi fyrr á þessu ári að taka yfir Yahoo en upp úr viðræðunum slitnaði í júlí þegar Yahoo hafnaði tilboði Microsoft í leitarvélina Yahoo.

„Kannski verða áfram tækifæri til samstarfs um leitarvél,“ sagði Ballmer. „Við erum ekki í viðræðum við þá, en sjáum til. Þeir vilja vera sjálfstæðir áfram en ég held að samstarf væri hagkvæmt, bæði fyrir þeirra hluthafa og okkar.“

Frá því að upp úr viðræðum félaganna slitnaði í júlí hefur gengi bréfa Yahoo lækkað mikið, og hefur ekki verið lægra í fimm og hálft ár.

Reuters greindi frá.