Í nóvember seldi japanski bílaframleiðandinn Toyota um 618 þúsund bíla og hefur salan á Toyota bifreiðum því dregist saman um 21,8% milli ára.

Þetta þykir mikið áfall fyrir Toyota því ekki var á það bætandi eftir að félagið tilkynnti nú rétt fyrir jól að tap yrði af rekstri Toyota í ár, í fyrsta skipti í 71 árs sögu félagsins.

Þannig er gert ráð fyrir að Toyota muni tapa á þessu ári um 1,1 milljarði evra.

Þrátt fyrir að útlitið sé ekki jafn dökkt hjá Toyota og bandarísku kollegunum GM, Ford og Chrysler segir viðmælandi Reutes fréttastofunnar að bílaiðnaðurinn sé mjög viðkvæmur um þessar mundir og mjög stutt sé í „hreinsun“ í iðnaðinum eins og hann orðar það. Þá skipti neikvæðar fréttir miklu máli varðandi áframhaldandi rekstur félaga.

Toyota hefur ekki farið varhluta af því efnahagsástandi sem nú ríkir í heiminum. Þá hefur japanska jenið reyndar verið að styrkjast síðustu vikur sem gerir útflutning erfiðari en ella.