Viðræður á milli háttsettra bandarískra og kínverska stjórnmálamanna um viðskiptamál ríkjanna hófust í gær og lýkur í dag. Í brennidepli er hinn mikli halli sem er á inn- og útflutningi Bandaríkjanna til Alþýðulýðveldisins en búist er við fulltrúar Bandaríkjanna ítreki kröfur sínar um að kínversk stjórnvöld auki vikmörk gjaldmiðils síns, júansins, gegn Bandaríkjadal enn frekar. Umkvörtunarefnið er ekki nýtt, en þungavigtarmenn í bandaríska þinginu telja að tími sé til kominn að Kínverjar geri eitthvað í málinu.

Bandarískt stjórnvöld segja að hinn mikla halla sem er á viðskiptum þjóðanna megi rekja til þess að kínversk stjórnvöld haldi gengi júansins of lágu gagnvart Bandaríkjadal til þess að styrkja stöðu útflutningsatvinnuvega landsins. Í fyrra nam halli á viðskiptum Bandaríkjamanna við Kínverja 232 milljörðum Bandaríkjadala. Kínverjar, sem hafa leyft júaninu að flökta ögn meir gagnvart dalnum að undanförnu, telja stöðugan gjaldmiðil forsendu þess að hægt sé að yfirstíga ýmsan vanda sem steðjar að hagkerfi landsins um þessar mundir. Hinsvegar er ljóst að sendinefnd þeirra muni finna fyrir enn meiri þrýsting málinu en áður þar sem að það styttist í forsetakosningar og sá málflutningur að óeðlilega veikt júan orsaki atvinnuleysi í Bandaríkjunum fellur í góðan jarðveg í mörgum herbúðum. Demókratar, sem nú fara með meirihluta á Bandaríkjaþingi, enduróma þennan málflutning í meira mæli en repúblikana og hafa meðal annars hótað að gripið verði til refsiaðgerða komi kínversk stjórnvöld ekki í auknum mæli til móts við umkvörtunarefni Bandaríkjamanna.