Kanadíski fasteignamarkaðurinn virðist vera talsvert ólíkur þeim bandaríska hvað verðþróun varðar og er enn ekki farin að þjást verulega af þeim verðlækkunum sem hrjáir nágrannana í suðri. Það eru því talsverðar sveiflur á milli svæða í Ameríku líkt og raunin er í Evrópu. Ástandið vestanhafs hefur ekki verið sérlega gæfulegt, en Bandaríkjamenn máttu þola -18,07% lækkun á fyrsta ársfjórðungi 2008 samkvæmt húsnæðisvísitölu Case-Shiller hjá Standard & Poor’s. Hefur fasteignaverðið þar í landi greinilega verið á hraðri niðurleið, því vísitalan í febrúarlok sýndi metlækkun upp á -13,6% að meðaltali í 10 borgum og -12,7% í tólf borgum.

Mikill breytileiki í Kanada

Fasteignamarkaðurinn í Kanada sýnir þó enn sem komið er mun betri afkomu að meðaltali en sá bandaríski. Nýbyggingakostnaður hækkaði þó um +0,8% í apríl, samkvæmt byggingavísitölu kanadísku hagstofunnar sem birt var í júní. Þessum hækkunum hefur byggingaverktökum tekist að velta út í verðlagið og gott betur en það. Þannig mældist 12 mánaða meðaltalshækkun söluverðs á nýbyggingum 8,9% í júní. Það er þó ljóst að farið er að hægja á verðhækkunum í Kanada, því 12 mánaða mælingin náði methæðum í mars þegar hækkanir mældust 9,3%.

Í Kanada upplifa menn samt miklar sveiflur milli svæða. Langmest hækkun fasteignaverðsvísitölu hefur verið í Edmonton á 12 mánaða tímabili, eða 40,5%. Þar á eftir kemur Calgary með 27,4%, Saskatoon með 24,9%, Regina með 17,3% og Winnipeg með 6,9%. Hækkanir hafa verið víðar eins og í Halifax, Greater Sudbury, Thunder Bay og Vancouver. Reyndar tala heimamenn um að fasteignaverð í Vancouver sé orðið óbærilega hátt, en þar hefur verið mikil ásókn útlendinga inn á markaðinn.

Hins vegar hefur verð fallið í borginni Victoria á Vancouvereyju á vesturströndinni um -0,9%. Svipað á við um St. John’s á austurströndinni, Fredericton, Monvton og Charlottetown þar sem verð lækkaði um -0,2%. Er ástandið í Kanada því talsvert ólíkt því sem er hjá nágrönnunum í suðri. Svo ekki sé talað um lönd eins og Lettland í Austur- Evrópu þar sem sveiflan er nærri 75%, eða úr 36,53% hækkun á fyrsta ársfjórðungi í fyrra í -38,22% á fyrsta ársfjórðungi 2008.