Fundi í kjaradeilu flugvirkja Icelandair hjá ríkissáttasemjara lauk um klukkan ellefu í gærkvöld. Enn er ósamið í deilunni og samkvæmt upplýsingum fréttastofu RÚV ber enn mikið í milli deiluaðila. Næsti fundur var boðaður klukkan hálffjögur á í dag.

Í Fréttablaðinu í dag er haft eftir Maríusi Sigurjónssyni, varaformanni Flugvirkjafélags Íslands, að enginn gangur væri í viðræðunum.

Bein afskipti stjórnvalda gætu komið í veg fyrir ótímabundið verkfall flugvirkja sem er fyrirhugað á fimmtudaginn. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra getur kallað saman þing með sólarhringsfyrirvara í því skyni að setja lög á verkfallið. Fari svo að samningar takist ekki hjá Ríkissáttasemjara yrði hún því að kalla þingið saman í dag til að koma í veg fyrir að flugvirkjar geti lagt niður störf á fimmtudag.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði að ekki væri búið að ákveða að fella niður flug fari svo að verkfallið hefjist á fimmtudag.