Enn er óvissa um hvernig farið verður með vexti á gengistryggðum bíla- og húsnæðislánum þrátt fyrir dóm Hæstaréttar. Þótt miða skuli við lægstu óverðtryggðu vexti seðlabankans, samkvæmt dómi Hæstaréttar, hefur ekki verið leyst úr öllum álitamálum hvað þetta varðar.

Sérstaklega eru úrlausnarefnin flókin þegar kemur að lánum sem fylgt hafa bifreiðum sem átt hafa marga eigendur.

Samkvæmt upplýsingum frá Lýsingu, einu þeirra fyrirtækja sem veitt hafa mörg ólögleg gengistryggð lán á undanförnum árum, er óvíst hvenær munu liggja fyrir útreikningar á því hvaða vexti viðskiptavinir eiga að greiða.