Fyrirtaka var í fjórum málum slitastjórnar Kaupþings í Héraðsdómi Reykjaness í dag tengdum riftun á niðurfellingu persónulegrar ábyrgðar fyrrverandi starfsmanna bankans. Fyrrverandi starfsmenn bankans eru þeir Helgi Sigurðsson, sem var yfirlögfræðingur Kaupþings, Óskar Jósefsson, sem var yfir upplýsingatæknisviðinu, Klemens Arnarson sem var á fjárfestingarsviði og Jónas Sigurgeirsson, forstöðumaður samskiptasviðsins.

Í september 2008 tók Hreiðar Már Sigurðsson, þá forstjóri Kaupþings, að tillögu starfskjaranefndar stjórnar Kaupþings, þá ákvörðun að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna vegna lána af þessu tagi. Ábyrgðin nemur tíu prósentum af heildarlántökunni. Gert er ráð fyrir að niðurstaðan í málunum fjórum verði á svipaða lund og Hæstaréttur komst að í máli Delíu Howser, fyrrverandi starfsmanni Kaupþings, fyrir að verða hálfum mánuði.

Hæstiréttur staðfesti með dómnum að rifta skyldi niðurfellingu persónulegrar ábyrgðar Delíu á láni sem hún tók til að kaupa hlutabréf í bankanum og takmarkaðist ábyrgð hennar við 10% skuldarinnar. Þetta er jafnframt svipuð niðurstaða og Héraðsdómur Reykjavíkur komst að í máli slitastjórnar Kaupþings gegn Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni bankans, í síðustu viku. Hann fékk rúma fimm milljarða að láni hjá bankanum og var samkvæmt því dæmdur til að greiða þrotabúinu rúmar 500 milljónir króna að viðbættum vöxtum.

Yfirlögfræðingur fékk rúman hálfan milljarð

Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hversu háar fjárhæðir þessir fjórir starfsmenn fengu hjá bankanum. Samkvæmt því sem fram kemur í Rannsóknarskýrslu Alþingis var Helgi þeirra umsvifamestur með lán upp á tæpar 550 milljónir króna.  Þá fékk Jónas 500 þúsund pund að láni hjá bankanum til kaupa í sjóðnum Kaupþing Capital Partners II. Það jafngildi rétt rúmum 60 milljónum króna í lok árs 2007. Stjórnendur bankans fengu einir að kaupa hlutabréf í sjóðnum en hann fjárfesti í óskráðum hlutabréfum og hélt hann utan um hvatakerfi þeirra.

Þessu samkvæmt gæti Helgi þurft að greiða rúmar 50 milljónir króna til þrotabús Kaupþings en Jónas um sex milljónir. Allt fer það þó eftir við hvaða gengi gjaldmiðla er miðað.