Gestur Jónsson, lögmaður Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi starfandi stjórnarformanns Kaupþings, lagði fram ný gögn við fyrirtöku í riftunarmáli slitastjórnar Kaupþings gegn Sigurði í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Slitastjórnin vill rifta þeirri ákvörðun stjórnar Kaupþings að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna sem bankinn veitti lán á sínum tíma.

Mál slitastjórnar gegn Sigurði var þingfest í héraðsdómi í september í fyrra. Lögmönnum Sigurðar hefur hins vegar ítrekað fengið því frestað og málið þvælst fram og til baka í dómskerfinu.

Sérstakur flutningur verður um það nýja skjal sem lögmaður Gests lagði fram í héraðsdómi í morgun. Telji dómurinn að skjalið eigi heima í málinu þykir fyrirséð að flutningur málsins geti tafist um nokkurra mánaða skeið. Að öðrum kosti þykir líklegt að aðalmeðferð í riftunarmálinu hefjist fyrir áramót.

Sigurður hefur aldrei mætt þegar riftunarmál hans hefur verið tekið fyrir og hafði hann sama háttinn á við fyrirtökuna í morgun.

Mál slitastjórnarinnar er eitt af mörgum sem höfðuð hafa verið gegn fyrrverandi stjórnendum Kaupþings vegna persónulegra ábyrgða. Á fimmtudag er fyrirtaka í sambærilegum málum þeirra Ingólfs Helgasonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings á Íslandi, og Steingríms P. Kárasonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra áhættustýringar bankans.