Framtíð þess hluta Mest ehf. sem Glitnir tók ekki yfir er enn óráðinn. Kári Lúthersson, framkvæmdastjóri sölusviðs Mest, segir ekkert nýtt hafa komið fram síðan fyrir helgi.

„Við erum enn í óvissu og vonumst eftir því að niðurstaða komist í málið sem fyrst,“ segir Kári. Á vef Viðskiptablaðsins, vb.is, var sagt frá því fyrir helgi að tugir starfsmanna sem vinna hjá fyrirtækinu við tækjaleigu og sölu á byggingavörum, óttist að þeir fái ekki útborgað fyrir mánaðarmót. Glitnir og SP-fjármögnun eru helstu lánadrottnar Mest.

Viðskiptablaðið hefur reynt að ná tali af Pétri Guðmundssyni, stjórnarformanni Mest ehf., án árangurs. Sagt hefur verið frá því að rekstur Mest hafi gengið erfiðlega að undanförnu. Sá hluti Mest sem rekur steypustöðvar, helluframleiðslu og verslun með múrvörur, heitir nú Steypustöðin Mest og hefur Glitnir tekið hann yfir. Sú yfirtaka tryggði að um hundrað manns héldu vinnu sinni.