Samkvæmt árlegri rannsókn Reuters-stofnunarinnar á stafrænum fréttum er netið enn að sækja í sig veðrið á fjölmiðlasviðinu, þó raunar bendi ýmislegt til þess að aðrar gerðir miðla séu að finna fjölina á tekjusviðinu á ný.

Enn er þó langt í land og af súluritinu hér að ofan, um hverjar séu helstu fréttalindir fólks, blasir við að töluverður munur er á aldurshópum, sem hlýtur að vera sumum miðlum – sérstaklega línulegum sjónvarpsstöðvum – áhyggjuefni um þróunina á komandi árum.

Þeir geta þó huggað sig við að ekki er gefið að þessi munur á aldurshópum haldist óbreyttur eftir því sem kynslóðirnar eldast. Hrynjandin í aldurshópum er greinilegust þegar litið er til félagsmiðlanna, sem hafa sætt miklu ámæli fyrir að grafa undan hefðbundnum fréttamiðlum og vera gróðrarstía falskra frétta.