Hagkerfi Spánar dróst saman um 0,3% á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Þetta þykja slæmar fréttir fyrir stjórnvöld á Spáni en hagkerfið stóð í stað á milli 2. og 3. ársfjórðungs.

Breska útvarpið, BBC, hefur eftir Nick Matthews, hagfræðingi hjá Royal Bank of Scotland, að þótt nokkur evruríki glími við erfiðleika nú um stundir þá sé staða Spánar verri.

Samdráttar hefur ekki gætt í spænsku efnahagslífi í tvö ár. Niðurstaðan nú eykur líkurnar á því að landið stefni inn í nýtt samdráttarskeið.

BBC dregur upp fremur dökka mynda af spænksu efnahagslífi. Á sama tíma og einkaneysla dróst saman um 1,1% á milli ársfjórðunga drógust umsvif hins opinbera saman um 3,6%. Þá er atvinnuleysi á Spáni í kringum 25% sem er það mesta innan evrusvæðisins. Atvinnuleysistölurnar jafngilda því að 5,3 milljónir manna mæli göturnar þar í landi.