Helstu hlutabréfavísitölur á meginlandi Evrópu hafa fallið í kringum 2,5% á mörkuðum í dag vegna vandræðagangs Grikkja. Þá hafa helstu vísitölur lækkað hinum megin Atlantsála.

Fjárfestar vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga, hvort þeir eigi að halda í evruna eða kasta henni með tilheyrandi áhrifum á bæði grískt efnahagslíf ef skrúfað verður fyrir alþjóðlegt og eigendur grískra ríkisskuldabréfa sem töpuðu 70% af upphaflegri fjárfestingu sinni þegar þeir tóku þátt í að bjarga Grikklandi frá gjaldþroti fyrir nokkrum mánuðum síðan.

Stjórnendur hjá þýska bankanum Bundesbank upplýstu það reyndar í dag að brotthvarf Grikkja úr myntbandalagi Evrópusambandsríkjanna væri „viðráðanlegt.“

FTSE-vísitalan í Bretlandi og DAX-vísitalan í kauphöllinni í Þýskalandi hafa nú fallið um tæp 2,6%, CAC 40-vísitalan í Frakklandi fallið um rúm 2,8% og Micex-vísitalan í kauphöllinni í Rússlandi fallið um 3,56%.

Þá hefur Dow Jones-hlutabréfavísitalan lækkað um 1,35% það sem af er dags og Nasdaq-vísitalan lækkað um 1,26%.