Samskipti flugmanna Boeing þar sem þeir ræða efasemdir sínar um MCAS-kerfið í Max þotunum var lekið í fjölmiðla síðastliðin föstudag. Samskiptin eru þriggja ára gömul en flugslysin tvö þar sem 346 manns létu lífið eru rakin til MCAS-kerfisins og hefur því vakið mikla athygli. Greint er frá þessu á fréttavefnum turisti.is þar sem jafnframt kemur fram að bandaríska flugmálaeftirlitið (FAA) hafi í kjölfar fréttanna krafist skýringa á því hvers vegna félagið hafi ekki upplýst yfirvöld um efasemdir flugmannanna.

Boeing sendi frá sér yfirlýsingu um helgina þar sem þeir harma að málið hafi ratað í fréttir án skýringa. Segir í yfirlýsingunni að efasemdir flugmannanna um kerfið hafi beinst að flughermi sem var til prófunar á þessum tíma en ekki að MAX þotunum.

Málið þykir engu að síður hið vandræðalegasta fyrir Boeing og gæti mögulega frestað enn frekar að kyrrsetning vélanna verði aflétt.