Daimler AG hefur gefið út sölutölur á Mercedes Benz fyrir nóvember. Enn á ný slær bílaframleiðandinn fyrri met en salan í nóvember jókst um 5,7% milli ára í mánuðnum.

Alls hefur bílaframleiðandinn afhent 1.194.904 bifreiðar í ár sem er 5,1% aukning milli ára. Því er fastlega búist við að þetta verði besta ár félagsins hvað fjölda seldra bifreiða varðar.

Forsvarsmenn Daimler segja að mjög góð sala sé á GLK, G og M jeppunum, sala á  A bílnum sem var valinn bíll ársins 2013 á Íslandi af bílablaðamönnum fari mjög vel af stað og S bíllinn sé mest seldi bíllinn í sínum stærðarflokki, þrátt fyrir að nýr kynslóð verði kynnt á næsta ári.

BMW og Audi hafa ekki enn kynnt sölutölur sínar á heimsvísu fyrir nóvember en salan í Norður Ameríku bendir til svipaðrar söluaukningar og hjá Daimler.

Þýskir bílaframleiðendur eru í algjörum sérflokki meðal bílaframleiðenda í Evrópu. Þar utan stendur Opel sem má muna fífil sinn fegurri en margir myndu skilgreina þá bandaríska þar þeir eru í eigu General Motors.

Vondar fréttir berast nær daglega frá frönskum og ítölskum bílaframleiðendum og ekki er útilokað að bílaframleiðendum muni fækka í álfunni samfara hruni í bílasölu í Evrópu.