Í júlí var enn eitt metið slegið í fjölda farþega um Keflavíkurflugvöll, en alls fóru 546.749 farþegar um flugvöllinn og er þetta í fyrsta skipti sem fjöldinn í einum mánuði fer yfir 500 þúsund. Aukningin er 17,8% miðað við sama mánuð og í fyrra. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Isavia.

Það sem af er ári hafa hátt í 2,2 milljónir farþega farið um flugvöllinn, sem er aukning um 20,2% miðað við sama tímabil árið 2013. Í sumar stunda 20 flugfélög áætlunarflug á milli Keflavíkurflugvallar og 60 áfangastaða.

Þessari miklu farþegaaukningu undanfarin ár fylgir aukið aukið álag á innviði flugstöðvarinnar og hefur Isavia ráðist í ýmsar framkvæmdir undanfarið til þess að takast á við það. Nýverið var lokið við tvöföldun á afkastagetu farangursflokkunarkerfisins og um þessar mundir er verið að steypa sökkul að 5.000 fermetra viðbyggingu við suðurhluta flugstöðvarinnar sem gert er ráð fyrir að taka í notkun árið 2016.