Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365 miðla, segir að viðræður við Fjarskipti hf. (móðurfélag Vodafone) um kaup á 365 miðlum fyrir 3,4 milljarða séu tiltölulega stutt komnar. Til dæmis eigi eftir að gera kostgæfnisathugun. Þar sem Vodafone sé skráð á markað hafi verið ákveðið að tilkynna strax um viðræðurnar.  Sævar Freyr segir að ef viðskiptin gangi eftir verði til „mjög öflugt fyrirtæki á sviði fjarskipta og fjölmiðlunar".

Sævar segir að Samkeppniseftirlitið eigi eftir að fá öll gögn um málið og eftir það geti stofnunin tekið afstöðu til hugsanlegra viðskipta. „Það var rétt verið að tilkynna þetta í dag,“ segir hann.

Fyrir nokkrum vikum bárust fregnir um að Síminn ætti í viðræðum við 365 miðla og í því ljósi er athyglisvert að í tilkynningunni, sem Vodafone sendi í morgun, er talað um að undirritað hafi verið samkomulag um einkaviðræður. Sævar Freyr vill lítið tjá sig um þetta heldur segir að Vodafone og 365 miðlar hafi einfaldlega samið á þessum nótum.

Aðspurður um samþykki kröfuhafa 365 miðla fyrir væntanlegum viðskiptum svarar Sævar Freyr því til að ætlunin sé að vera í góðum samskiptum við fjármálafyrirtæki í tengslum við viðræðurnar.