Íslenska krónan hefur verið í miklum styrkingarfasa undanfarin ár og hefur styrkingin haft umtalsverð áhrif á verð á innfluttum neysluvarningi, sem hefur lækkað í samræmi við styrkingu krónunnar.

Ef miðað er við almennt gengi Íslandsbanka, hefur krónan styrkst um tæp 3% á síðasta mánuði og um 7,5% frá áramótum gagnvart Kanadadollar. Miðgengi hans er nú 86,79 krónur.

Svissneski frankinn hefur veikst um nær 10% á árinu og lækkaði um nær 1% í mánuðinum. Gengi frankans stendur í tæpum 117 krónum.

Danska krónan stendur nú í 17,10, en hún hefur veikst um nær 1,25% í mánuðinum og 9,3% frá áramótum.

Pundið hefur haldið áfram að falla og stendur það nú í 146 krónum. Í mánuðinum veiktist það um 4,18% gagnvart krónunni, en frá áramótum hefur það veikst um nær 23%.

Bandaríkjadollar hefur einnig veikst gagnvart krónunni og stendur gengið nú í tæpum 114 krónum. Lækkun mánaðarins nam 1,77% en dollarinn hefur veiktst um nær 12,5% frá áramótum.

Í mánuðinum styrkist gengi norsku krónunnar aftur á móti um nær 2,16% og japanska jensins um 0,6%.