Ákveðin svartsýni ríkti við opnun markaða í Asíu nú í byrjun apríl og kom það fram í þróun hlutabréfaverðs. Könnun japanska seðlabankans sýnir að stjórnendur þar eru enn svartsýnir þrátt fyrir að horfur hafi eitthvað batnað yfir þriggja mánaða tímabil. Á sama tíma hefur aukin framleiðsla í Kína ekki fylgt væntingum. Jenið hefur styrkst gagnvart evru og dollar, sem er ekki gleðiefni fyrir útflytjendur. Aðalvísitala Nikkei hefur lækkað um 2,1 prósent.

Allra augu beinast nú að nýjum seðlabankastjóra í Japan. Stýrivaxtanefnd bankans tekur í fyrsta sinn ákvörðun um vexti undir hans stjórn seinna í þessari viku. Standa vonir manna til að hann tilkynni aðgerðir sem eigi að hleypa nýju blóði í efnahagslífið.