Aðra nóttina í röð verður þjónusta á Keflavíkurflugvelli takmörkuð við sjúkra- og neyðarflug vegna veikinda flugumferðarstjóra.

Tveir flugumferðarstjórar sem áttu að vera á vakt í nótt eru veikir, en yfirvinnubann Félags íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) sem hefur staðið yfir síðan 6. apríl hindrar að hægt verði að manna vaktirnar. Takmörkunin gildir milli 2 í nótt til 7 í fyrramálið, en á þeim tíma er áætlað að 16 flugvélar komi frá Norður Ameríku og 8 haldi til Evrópu.

Kjaraviðræður FÍF og Samtaka Atvinnulífsins fyrir hönd ISAVIA hefur verið vísað til ríkissáttasemjara, en þær hafa staðið yfir síðan í nóvember. Enginn fundur hefur verið boðaður síðan sá síðasti var haldinn 20. maí síðastliðinn.