Fjárfestingarfélagið Gnúpur tapaði tveimur milljörðum króna árið 2010. Þetta kemur til viðbótar við tæplega 1,1 milljarðs króna tap árið 2009.

Gnúpur var stofnað í október 2006 upp úr sölu  Kristins Björnssonar, fyrrverandi forstjóra olíufélagsins Skeljungs,  og útgerðarmannsins Magnúsar Kristinssonar á tæpum fjórðungshlut í Straumi-Burðarási til FL Group. FL Group greiddi fyrir hlutinn með hlutabréfum upp á 47 milljarða króna með hlutabréfum upp á 35 milljarða í FL Group og tólf milljarða  í Kaupþingi. Gnúpur átti þegar mest lét 20% hlut í FL Group og var stærsti hluthafinn og um skeið þriðji helsti hluthafi Kaupþings.

Fjölskylda Kristins Björnssonar átti 44 prósenta hlut í Gnúpi á móti jafn stórum hlut Magnúsar, konu hans og bróður. Afgang átti Þórður Már Jóhannesson, forstjóri Gnúps. Félagið var einn af stærstu skuldurum gömlu viðskiptabankanna þegar það fór á hliðina undir lok árs 2007, tæpum tveimur árum eftir að það var stofnað. Gnúpur hefur um nokkurra ára skeið heyrt undir þrotabú Glitnis.

Skuldar enn 14 milljarða en á lítið

Fram kemur í uppgjöri Gnúps að rekstrartap hafi numið numið 9,6 milljónum króna árið 2010 samanborið við 10,4 milljónir árið 2009. Tapið skýrist af vaxtagjöldum og gengismuni af skuldum félagsins.

Skuldir félagsins námu í lok árs 2010 tæpum 14,5 millljörðum króna. Eigið fé var á sama tíma neikvætt um 13,6 milljarða. Fremur litlar eignir eru til í búi Gnúps á móti skuldum; 884 milljónir króna. Þar af eru rúmar 480 milljónir króna af handbæru fé á bankareikningi auk 364 milljóna króna af ýmsum öðrum skammtímakröfum.