Farsímafyrirtækið Tal tapaði 197 milljónum króna í fyrra. Þetta er rétt rúmlega tvöfalt meira tap en árið 2011 þegar það nam 92,8 milljónum króna.

Fram kemur í uppgjöri Tals að tekjur námu 1,8 milljörðum króna á síðasta ári borið saman við 1,9 milljarða í hittifyrra.

VB.is sagði frá því fyrr í dag að Viktor Ólafson hafi látið af störfum sem forstjóri og Petrea Ingileif Guðmundsdóttir tekið við starfi forstjóra Tals.

Dýrt að flytja viðskiptavini yfir til Símans

Í tilkynningu frá Tali segir að helsta skýringin á tapinu liggi í miklum kostnaði í tengslum við innleiðingu á nýjum fjarskiptasamningi þar sem allir viðskiptavinir Tals voru fluttir af kerfum Vodafone yfir á kerfi Símans. Yfirfærslu á nýtt kerfi lauk í mars á þessu ári og hafi frá miðju árinu verið jafnvægi í rekstrinum.

Steinþór Baldursson, stjórnarformaður Tals, segir í tilkynningu:

„Síðasta ár var virkilega krefjandi fyrir Tal og starfsmenn félagsins. Kostnaðurinn sem hlaust af flutningi viðskiptavina yfir á nýtt fjarskiptakerfi var þungur baggi fyrir félagið. Nú er reksturinn hins vegar kominn í jafnvægi og félagið nýtur góðs af sterku dreifikerfi Símans . Við höfum náð góðum árangri í sölu á síðustu mánuðum og bætt markaðshlutdeild félagsins verulega.“