Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing tilkynnti í gær að félagið hygðist afhenda fyrstu 787 Dreamliner vélina á þriðja ársfjórðungi þessa árs.

Framleiðsla Boeing 787 Dreamliner hefur tafist verulega eins og margoft hefur komið fram en upphaflega stóð til að afhenda fyrsta eintakið í almenna þjónustu árið 2008. Síðan þá hefur afhendingunni verið frestað sex sinnum og búið var að tilkynna að fyrsta vélin yrði afhent á öðrum ársfjórðungi þessa árs.

Flugvélinni var fyrst reynsluflogið í desember 2009 en síðan þá hafa sex vélar verið nánast stanslaust í loftinu í reynsluflugi við hinar ýmsu aðstæður. Það er venjan þegar ný flugvél er sett á markað að hún sé reynd í öllum mögulegum aðstæðum og gerðar á henni hinar ýmsu tilraunir.

Í nóvember sl. þurfti ein vélin að nauðlenda í Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum eftir að reykur kom upp í flugstjórnarklefa. Fyrst var óttast að eldur hefði komið upp í vélinni en síðar kom í ljós að um rafmagnstruflun var að ræða. Á meðan atvikið var rannsakað voru allar tilraunaflugvélarnar kyrrsettar sem augljóslega hefur tafið reynsluflugsferlið.

Athygli vekur þó að frekari tafir virðast ekki hafa áhrif á hlutabréfaengi Boeing líkt og fyrri tafirnar gerðu. Við lok markaða í gær hafði gengi bréfa í Boeing hækkað um 3% frá opnun markaða í gærmorgun. Einn viðmælandi Reuters fréttastofunnar segir að fjárfestar séu orðnir vanir, og jafnvel búast við, frekari seinkunum. Hins vegar sé öllum ljóst að 787 Dreamliner er á lokastigi framleiðslunnar og ljóst að vélin verður afhent til notkunar innan skamms. Því skipti nokkrir mánuðir til eða frá ekki máli úr því sem komið er.

Rétt er að hafa í huga að flugvélaframleiðendur fá stærstan hluta vélanna greiddan við afhendingu þannig að þegar 787 Dreamliner kemst á almennilegt framleiðslustig og farið verður að afhenda vélarnar á færibandi má gera ráð fyrir töluverðu innstreymi fjármagns hjá Boeing. Nú þegar liggja 847 pantanir á vélinni fyrir. Boeing hefur ekki gefið upp kostnað við framleiðslu og þróun vélarinnar en listaverð vélarinnar er 185-218 milljón Bandaríkjadalir.

Fyrir áhugasama má sjá tímalínu á töf í framleiðslu 787 Dreamliner og gengi hlutabréfa í Beoing HÉR .