Boeing hafa tilkynnt um enn frekari tafir á afhendingu nýju 787 Dreamline flugvél félagsins. Vélin er nú 27 mánuðum á eftir áætlun, að því er greinir í frétt BBC.

Tafirnar munu hafa áhrif á afhendingar vélanna sem áætlaðar eru fram til 2012. Boeing tilkynntu í síðasta mánuði um þriðju töfina á afhendingu 787 vélarinnar, en auk þess sem félaginu hefur gengið illa að smíða vélina hafa birgjar félagsins ekki annað eftirspurn þess.

Ekkert þeirra 55 flugfélaga sem pantað höfðu vélina hafa hætt við pöntun sína enn sem komið er, en margir hyggjast hins vegar sækja bætur frá Boeing vegna tjóns sem þeir verða fyrir.