Fyrirtaka var í dag í máli skiptastjóra þrotabús ÞS69 ehf, áður Þrek, gegn félaginu Laugum. Málið snýst um kröfu skiptastjórans til að rifta kaupum Lauga á rekstri líkamsræktarstöðva World Class úr þrotabúi Þreks í september árið 2009. Þrek ehf hélt utan um rekstur líkamsræktarstöðvanna en Laugar sáu um fasteignir og búnað. Bæði félögin voru að nær öllu leyti í eigu Björns Leifssonar. Skiptastjóri ÞS69 segir Laugar hafa greitt of lítið fyrir eignir Þreks og vill rifta kaupunum.

Lögfræðingur þrotabús ÞS69 segir í samtali við vb.is hundruð milljóna króna undir. Stefnt sé á aðalmeðferð í málinu í desember.

Morgunblaðið greinir frá því að við gjaldþrot Þreks hafi Laugar keypt reksturinn úr þrotabúi ÞS69 á 25 milljónir króna auk yfirtöku á skuldbindingum við korthafa sem metnar voru á 240 milljónir króna. Þá kemur fram að þetta sé eitt af nokkrum málum sem tengjast riftunarmálum skiptastjóra ÞS69 gegn Laugum. Það fyrsta höfðaði skiptastjóri í byrjun síðasta árs. Búið er að semja um í einu máli, í öðru sem tengdist líkamsræktarstöð félagsins á Seltjarnarnesi tapaði skiptastjóri og hefur hann áfrýjað niðurstöðunni til Hæstaréttar. Í þriðja málinu gekk dómur að hluta. Öðrum hluta var vísað frá og hefur því verið stefnt aftur.