Guðmundur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, staðfestir að sjóðurinn sé enn að skoða möguleg kaup á hlut Geysis Green Energy í HS Orku ásamt tveimur öðrum lífeyrissjóðum.

Engin ákvörðun hafi þó verið tekin „en það styttist í niðurstöðuna," segir hann.

Eins og fram hefur komið á vb.is eru hinir tveir lífeyrissjóðirnir, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Gildi lífeyrissjóður. Þá er Grindavíkurbær með í þessu ferli sem og fulltrúar fjármálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis.

GGE á 55% hlut í HS Orku en kanadíska félagið, Magma Energy, er að tryggja sér 43% hlut. Rúmur helmingshlutur í HS Orku er metinn á um það bil 15 til 17 milljarða króna.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er til skoðunar að lífeyrissjóðirnir kaupi jafnvel allan hlut GGE í HS Orku.