Fasteignaverð hefur hækkað umfram spár bjartsýnustu manna og hefur fasteignaverð hækkað um 24% frá upphafi árs og 38% síðastliðna 12 mánuði. Fasteignaverð sérbýlis hefur hækkað um 54,5% en fjölbýlis um 33,6% síðastliðna 12 mánuði. Samkvæmt tölum Fasteignamats ríkisins hækkaði fasteignaverð í maí síðastliðnum um 3,8%. Þó Íslendingum þyki nóg um er fasteiganverð enn tiltölulega lágt í Reykjavík í samanburði við verð í höfuðborgum annarra Norðurlanda.

Enn virðist lítið lát vera á verðhækkunarskriðu fasteigna hér á landi þó sumir hagfræðingar hafi spáð að draga færi úr hækkunum þegar kæmi fram á mitt ár sökum aukins framboðs á nýju húsnæði. Ljóst er að mikið af nýju húsnæði er að koma í notkun á næstu vikum og mánuðum og samkvæmt því ætti kúfnum senn að verða náð.

Í hálf fimm fréttum KB banka á mánudag er hins vegar reynt að meta ástandið í samanburði við fasteignaverð í Reykjavík og höfuðborgum annarra Norðurlandaþjóða á árinu 2004. Þar kemur fram að þrátt fyrir mjög miklar hækkanir á fasteignaverði að undanförnu sé fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu lágt í samanburði við flestar nágrannaþjóðir okkar.