Þrátt fyrir umtalsverða lækkun vaxta á Íslandi er vaxtamunur við útlönd enn allnokkur, sér í lagi munur á langtímavöxtum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í greiningu Íslandsbanka .

Tiltölulega traust staða hins opinbera við upphaf COVID ásamt sögulega lágum grunnvöxtum mun hins vegar gera tímabundna aukningu opinberra skulda vegna mótvægisaðgerða hins opinbera léttbærari en ella.

Grunnvextir á Íslandi hafa lækkað verulega undanfarið eitt og hálft ár og gildir það jafnt um skammtímavexti sem langtíma ávöxtunarkröfu.

Til að mynda hafa meginvextir Seðlabankans lækkað úr 4,5% á vordögum í fyrra niður í 1,0% frá og með miðjum maí síðastliðnum. Frá ársbyrjun 2019 fram til loka síðustu viku hefur krafa á lengsta flokki óverðtryggðra ríkisbréfa, RIKB31, farið úr 5,5% niður í 2,5%. Sömu sögu má segja af raunvöxtum þó í minna mæli sé.

Krafa lengsta verðtryggða markflokks ríkisbréfa, RIKS30, var til að mynda ríflega 1,4% í ársbyrjun 2019 en aðeins lítillega yfir 0% í lok síðustu viku. Vaxtalækkun Seðlabankans hefur því skilað sér býsna vel yfir í bæði verðtryggða og óverðtryggða langtímavexti á þennan kvarða.