ENNEMM hefur nú keypt þriðjungshlut í ABS fjölmiðlahúsi ehf. sem var stofnað árið 2001 af Hvíta húsinu og Íslensku auglýsingastofunni og skiptist eignarhald ABS nú jafnt á milli þessara þriggja auglýsingastofa segir í tilkynningu.

„Tilgangurinn með innkomu ENNEMM er að styrkja stöðu ABS og ná fram enn frekari hagræðingu við kaup á birtingum og nauðsynlegum rannsóknum fyrir hönd viðskiptavina stofanna,“ segir Guðmundur St. Maríusson framkvæmdastjóri ABS í tilkynningu.

Að sögn Halls A. Baldurssonar, starfandi stjórnarformanns ENNEMM „mun ABS leggja mikla áherslu á að þróa þekkingu og tækni í birtingaþjónustu, bæði hvað varðar hefðbundna miðla og einnig miðla sem tengjast Internetinu. Í krafti stærðar og langrar reynslu gæti ABS gegnt leiðandi hlutverki á þessu sviði," eins og hann segir í tilkynningu.

Þar kemur einnig fram að fram að þessu hefur ABS starfrækt eina starfsstöð en sú breyting verður nú gerð að starfræktar verða þrjár starfsstöðvar, þ.e. á Íslensku auglýsingastofunni, Hvíta húsinu og ENNEMM. Að sögn Magnúsar Loftssonar, framkvæmdastjóra Hvíta hússins „er þetta gert til að stofurnar geti boðið viðskiptavinum sínum heildarþjónustu í auglýsinga- og markaðsmálum þar sem tengsl á milli stefnumótunar, hugmyndavinnu og birtingaþjónustu séu sem sterkust.“