Jóhann Ævar Grímsson hefur verið ráðinn þróunarstjóri leikins efnis hjá Sagafilm. Jóhann Ævar hefur tekið þátt í að skrifa nokkra af vinsælustu sjónvarpsþáttum síðari ára auk kvikmyndanna Astrópíu og Bjarnfreðarsonar. Meðal sjónvarpsþátta sem Jóhann Ævar hefur skrifað, ásamt öðrum, eru Stelpurnar, vaktaseríurnar þrjár, Pressa 2 og 3 og Heimsendir. Ráðning Jóhanns Ævars er liður í áherslubreytingu innan Sagafilm, sem felur í sér að fyrirtækið ætlar að styrkja aðkomu sína að þróun og skrifum efnis.

Sagafilm hefur hingað til unnið í samstarfi við aðra um skrif og þróun verkefna, og mun halda því áfram, en ætlunin er að þróa meira af efni innanhúss. Ævar er enginn nýgræðingur í handritaskrifum og framleiðslu sjónvarps- og kvikmyndaefnis, eins og áður segir, en fyrsta handritið, sem kvikmyndað var, skrifaði hann ásamt Ottó Geir Borg árið2005. Kvikmyndin Astrópía var svo frumsýnd árið 2007.

Jóhann Ævar segir að South Park sé á meðal uppáhaldssjónvarpsþátta sinna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .