*

föstudagur, 22. nóvember 2019
Innlent 7. janúar 2016 17:48

Ennþá litla fyrirtækið á markaðnum

Liv Bergþórsdóttir og Nova eru handhafar Viðskiptaverðlauna Viðskiptablaðsins. Hér er fjórði hluti af viðtal við Liv.

Bjarni Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Nova og Liv Bergþórsdóttir forstjóri fyrirtækisins eru handhafar Viðskiptaverðlauna Viðskiptablaðsins árið 2015. Liv segir að fyrirtækið hafi lagt áherslu á nýjungar í rekstrinum en það var brautryðjandi í netþjónustu fyrir farsíma hér á landi. 

Nova er ekki eingöngu í farsímaþjónustu en Liv segir Nova bjóða upp á „allan pakkann“, síma, net og sjónvarp með öðrum hætti en samkeppnisaðilar fyrirtækisins. „Sjónvarpið er komið á netið og netið í símann,“ segir Liv. „Við skoðum reglulega ný tækifæri. Það er alltaf eitthvað að koma upp sem gæti verið skemmtilegt að gera. Við tókum þannig eitt nýtt skref á árinu þegar við í samtarfi við Stokk kynntum appið Aur.

Það hefur lengið verið í umræðunni að farsíminn verði rafræn veski, skilríkin þín og kortin fari í farsímann. Við sáum tækifæri í að byrja á að bjóða einfaldar greiðslur í gegnum farsímann. Aur virkar þannig að þegar þú borgar með farsímanum er tekið út af debet- eða kreditkortinu þínu og þegar aðrir borga þér er lagt inn á bankareikninginn þinn. Þú þarft bara að vita símanúmer þess sem þú ætlar að borga en ekki kennitölu og bankaupplýsingar líkt og í heimabönkum. Aur er því mun einfaldari og fljótlegri leið til að millifæra peninga. Viðtökurnar hafa verið mjög góðar og við erum nú þegar með um 10.000 notendur.“ 

Nýtt umbreytingarskeið

Þrátt fyrir vöxt Nova á síðustu árum segir Liv að fyrirtækið sé enn litli aðilinn á markaðnum. „Við störfum á afmörkuðum hluta hans, sem veltir um 16 milljörðum af þeim 52 sem heildarveltan er,“ segir hún.

„Í dag eru bæði Síminn og Vodafone í Kauphöllinni. Það má vel vera að Nova verði skráð félag einn daginn. Novator er fjárfestingarfélag, þeir kaupa og selja fyrirtæki og hafa aldrei farið leynt með að Nova er til sölu, eins og hvert annað félag. Þá hafa þeir oft verið stórir hluthafar í skráðum félögum, líkt og Actavis.

Novator hefur sérhæft sig í fjarskiptafélögum og verið virkur þátttakandi í uppbygginu þeirra. Það er gott að vinna með eiganda sem hefur faglega þekkingu og brennandi áhuga á starfseminni. Við höfum átt gott samstarf og það kemur auðvitað að því einn daginn að þeir selji Nova, en þeim liggur heldur ekkert á.

Þetta hefur verið gott ár hjá Nova. Við þurfum að búa okkur undir enn flóknari samkeppni, sem líkt og á öðrum mörkuðum kemur úr nýrri átt og verður alþjóðlegri. Við störfum á spennandi markaði og samhliða snjallvæðingunni opnast ný tækifæri um leið og eftirspurn eftir þjónustu okkar eykst.

Við erum á fleygiferð inn í nýtt umbreytingarskeið þar sem upplýsingatæknin verður ómissandi hluti af  allri vöru og þjónustu. Þessi risavaxna bylting mun stuðla að enn meiri nýsköpun, framleiðniaukningu og hagvexti á heimsvísu.

Það er því ljóst að það eru spennandi tímar framundan, gríðarleg tækifæri og áskoranir fyrir okkur, líkt og verið hefur frá upphafi,“ segir Liv að lokum.

Þetta er fjórði hluti af fjórum í Viðtali Viðskiptablaðsins við Liv Bergþórsdóttur. Hægt er að nálgast fyrsta hlutann hér, annan hluta hér og þriðja hluta hér.